news

Leikskólinn Hulduberg lokaður til og með 3. september

23. 08. 2020

Kæru starfsmenn og foreldrar/forráðamenn barna á Huldubergi.

Nú liggur fyrir staðfest smit hjá starfsmanni á leikskólanum í Huldubergi. Í kjölfarið hóf rakningateymi samhæfingarstöðvar almannavarna vinnu við að rekja ferðir starfsmannsins innan og utan vinnustaðar. Að loknu greiningarferli var tekin sú ákvörðun að loka þyrfti leikskólanum Huldubergi og öll börn og starfsmenn leikskólans færu í 14 daga sóttkví frá og með 21. ágúst. Rakningateymið hefur nú hafið vinnu við að hringja í foreldra og starfsmenn og eru viðkomandi beðnir um að bíða eftir þessu símtali.

Að kröfu sóttvarnalæknis þurfa allir starfsmenn og öll börn í leikskólanum Huldubergi að fara í sóttkví frá og með 21.08. til og með 03.09, þar sem þeir voru útsettir fyrir smiti vegna COVID-19 veirunnar. Aðrir á heimilinu sem ekki voru útsettir fyrir smitinu þurfa EKKI í sóttkví. Nauðsynlegt er að fullorðnir einstaklingar sem fylgdu barninu á leikskólann og voru með börn í aðlögun fari í sóttkví.

Við verðum í sambandi við ykkur foreldra varðandi aðlögun barna ykkar en gerum okkar besta við að taka þau eins fljótt og auðið er.

Einstaklingur fer í sóttkví ef hann hefur:

• Mögulega umgengist einstakling með nýja kórónuveirusýkingu.

• Verið á áhættusvæði en er ekki ennþá veikur sjálfur.

Í þessu tilviki er um að ræða starfsmann sem er smitaður af COVID-19 í leikskólanum. Leiðbeiningar um hvað felst í sóttkví má finna á vef embættis landlæknis og á www.covid.is

Helstu einkenni COVID-19 minna á venjulega flensu: Hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Meltingareinkenni (kviðverkir,ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en eru þó þekkt. Ef fyrrnefnd einkenni koma upp hjá þér eða fjölskyldu þinni á næstu 14 dögum, hvetjum við þig eindregið til að hafa samband við heilsugæslu, netspjallið á Heilsuvernd.is eða vaktsíma 1700 með ofangreindar upplýsingar.

Frekari upplýsingar um COVID-19, ef engin veikindi eru til staðar, má finna á heimasíðunni www.covid.is

Okkur þykir þetta ákaflega leitt en þetta er því miður nauðsynleg aðgerð.

Ykkur er velkomið að hafa samband ef spurningar vakna. Hægt er að hafa samband við deildarstjóra í gengum skilaboð á Karellen, senda póst á leikskólann eða hafa samband við fræðsluskrifstofu Mosfellsbæjar.

Frétt frá Mosfellsbæ

Hlýjar kveðjur til ykkar allra.

Virðingarfyllst,

Þuríður Stefánsdóttir leikskólastjóri

hulduberg@hulduberg.is