Markviss málörvun.

Markviss málörvun felur í sér kerfisbundin vinnubrögð í leik, þar sem markmiðið er að auka málvitund, þjálfa hljóðkerfisvitund barna og er forvarnarstarf gegn lestrarörðugleikum. Kennsluformið er byggt upp í leikjaformi til þess að ná athygli barnanna og vekja áhuga um leið og leikþörf barnanna og leikgleði er mætt.

Áhersla er á hlustunarleiki, rímleiki, setningar og orð, samstöfur, forhljóð og hljóðgreiningu.

Framkvæmd:

1. Unnið er eftir bókinni Markviss málörvun eftir Sigrúnu Löve, Helgu Friðfinnsdóttur og Þorbjörgu Þóroddsdóttur. Farið er í fyrsta kafla hennar.

2. Öll 4 ára börn á Huldubergi fá Markvissa málörvun einu sinni í viku í 15-20 mínútur í senn.

3. Unnið er með 5-10 börnum í hóp.

4. Unnið er í gegnum leikinn þar sem:

• Ríkir gleði

• Allir eru virkir

• Farið er eftir fyrirmælum

• Einstaklingurinn er styrktur

• Hópvitund efld

5. Í leikjum læra börnin að taka tillit til hvors annars, fara eftir reglum og virða það sem aðrir gera.