Námsmat

Námsmat er órjúfanlegur þáttur af skólastarfi. Því er ætlað að veita upplýsingar um árangur barnanna og til að nýtast kennurum og starfsfólki við að stuðla að frekari framförum í námi. Aðal tilgangur námsmats er að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið, framfarir í námi og hvernig hægt er að ná markmiðum þess. Námsmatið þarf að vera réttmætt, áreiðanlegt og leikskólar eiga að tileinka sér fjölbreyttar leiðir til að meta nám, vellíðan, færni og þroska barnanna. Markmið námsmats er að auka þekkingu og skilning leikskólakennara og annars starfsfólks leikskóla ásamt foreldra og barna á þroska barna, námi og líðan. Námsmatið á að beinast að áhuga barna, getu og hæfni og þar sem börn eru mismunandi og sýna hæfni, getu, þekkingu og áhuga á ólíkan hátt þarf námsmatið að vera einstaklingsmiðað. Ekki má bera framfarir barns við önnur börn né fyrirfram gefin viðmið og matið á að vera gert á þann hátt að það efli börnin í leik og starfi. Þegar kemur að því að skoða þroska, nám og velferð barna skal leggja áherslu á alhliða þroska. Huga skal að sjálfstæði, áhugasviði, þátttöku í leikjum í inni- og útiveru, félagsfærni og samkennd, frumkvæði og sköpunarkrafti, tjáningu og samskiptum barna við önnur börn sem og starfsfólk leikskólans. Námsmatið á jafnframt að efla sjálfstraust og sjálfsmynd barnsins.

Frá þeim degi er barnið byrjar í leikskóla er það komið undir athugul augu leikskólakennara sem fylgist með áhuga, þroska, námi og persónuleika barnsins í gegnum leikskólaárin. Mikilvægt er að mat fari fram hvenær sem er dagsins og við hvaða aðstæður sem er. Meta skal nám og áhuga barna þannig að þau séu að gera það sem þau sjálf kjósa að gera, því á þann hátt erum við að meta þau í því sem þau hafa áhuga á og í því sem þau sjálf vilja gera. Til þess að meta nám barna þarf líka alltaf að hlusta eftir viðhorfi barnsins því þannig er hægt að fá heildrænni mynd af námi hvers barns fyrir sig.

Kennarar Huldubergs halda utan um svokallaða ferilmöppu fyrir hvert barn sem skráð er í frá því barnið byrjar í leikskólanum og þar til það útskrifast þaðan. Þessar ferilmöppur eru síðan námsmatstæki sem notað verður m.a. í foreldraviðtölum. Ferilmappan er sett upp í rétta tímaröð þannig að hún sýni samfellu í námi og þroska barnsins. Á þann hátt er auðveldara að nýta upplýsingarnar í möppunni um barnið og leikskólastarfið, þar sem hægt á að vera að sjá hvort leikskólaumhverfið er að koma til móts við barnið í námi þess og þroska. Einnig getum við kennararnir nýtt okkur upplýsingarnar til að sjá hvort að við erum á réttri leið í kennsluaðferðum eða þurfum að laga okkur betur að barninu.

Hér er hægt að lesa hefti um Námsmat í leikskólum og skýrslu um ytra mat leikskólans Hulduberg