Innskráning í Karellen
news

Foreldranámskeið

28. 12. 2021

Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar

Á námskeiðinu er lögð áhersla á að kenna foreldrum aðferðir til að skapa æskileg uppeldisskilyrði sem líklegust eru til að skila árangri í lífi barns. Þannig er lagður grunnur að því að barnið þroski með sér mikilvæga eiginleika og læri færni sem nýtist því til frambúðar. Jafnframt er dregið úr líkum á ýmsum erfiðleikum í framtíðinni. Allir foreldrar eru hvattir til að sækja þessi námskeið, ekki síst þeir sem eiga yngstu börnin.

Árangur af foreldrafærninámskeiði (Gyða Haraldsdóttir o.fl., 2014) hér á landi, sem byggist á gagnreyndri þekkingu um árangursríkar uppeldisaðferðir, sýndi að foreldrar voru líklegri til að nota meira af æskilegum uppeldisaðferðum og minna af óæskilegum aðferðum eftir að hafa setið námskeið. Sömuleiðis voru foreldrar sjálfsöruggari í uppeldinu og treystu sér betur til að setja nauðsynleg mörk og gefa skýr skilaboð.

Hvert námskeið er samtals 8 klukkustundir og er einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn. Þátttakendur þurfa að skrá sig fyrirfram og er ætlast til að mætt sé í öll fjögur skiptin.

Að þessu sinni er boðið upp á fjarnámskeið í gegnum Teams og kennt er á rauntíma.

Skráning og nánari upplýsingar um námskeiðið og tímasetningar má finna á https://www.heilsugaeslan.is/serthjonusta/namskeid/uppeldi-sem-virkar/

Vinsamlegast athugið að búið er að opna fyrir skráningu og fyrstur kemur, fyrstur fær.

Velkomin á námskeið!

Þroska og hegðunarstöð

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins