Innskráning í Karellen

Markviss málörvun

Uppbygging málörvunarstunda 1 árs barna, skref fyrir skref:

Í hverjum hópi eru 4-5 börn og 2 starfsmenn eru með stundina. Annar starfsmaðurinn sér um stundina og hinn er til aðstoðar. Mikilvægt er að skapa rólegt umhverfi svo einbeiting náist hjá hópnum. Börnin setjast upp við vegg á svæði sem er merkt þeim með nafni. Allir tímar byrja á Bínureglum, þá næst er tíminn settur upp myndrænt. Verkefni tímans eru 1-2 verkefni að hverju sinni. Í lokinn er farið síðustu Bínu-regluna sem er að muna. Svo endar stundin með litlu lagi til þess að þakka fyrir sig og kveðja.

Hér er hægt að skoða Handbók snemmtækrar íhlutunar, málörvun leikskólabarna
handbók snemmtæk íhlutun, málörvun leikskólabarna.pdf

Uppbygging málörvunarstunda 2-4 ára barna, skref fyrir skref:

Í hverjum hóp eru 5-6 börn og 1 kennari sem sér um stundina. Börnin setjast við borð með kennara, hver á sinn stól sem er merktur með nafninu þeirra. Allir tímar byrja á Bínureglunum þá næst er tíminn settur upp myndrænt. Verkefni tímans eru svo 2-3 að hverju sinni. Í lokinn er farið í síðustu Bínu-regluna sem er að muna.Svo endar stundin með litlu lagi til þess að þakka fyrir sig og kveðja.

Boðskiptareglur Bínu

Boðskiptareglur Bínu Bína bálreiða er bók eftir Ásthildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðing. Bína er dúkka á leikskólaaldri sem er að læra undirstöðuþætti boðskipta sem eru m.a. sitja, passa hendur, hlusta, bíða, gera til skiptis og muna. Bína veit stundum ekki hvernig á að haga sér, hún verður reið og sýnir óviðeigandi hegðun en í bókinni lærir hún viðeigandi boðskiptaleiðir og þá fer henni að líða betur. Þessir þættir eru mikilvægir í námi barna svo þau læri viðeigandi boðskipti og sjálfstjórn. Bækurnar um Bínu byggja á reynslu höfundar af vinnu með börnum sem greind hafa verið með málþroskaraskanir. Algengt er að þessi börn fylgist illa með og skilji illa til hvers er ætlast af þeim. Þau gætu átt í erfiðleikum með hegðun og eru jafnvel talin óhlýðin og erfið í samskiptum. Rannsóknir hafa sýnt að sum börn með hegðunarvanda hafa þróað með sér erfiða hegðun vegna þess að þau eru með málþroskaröskun og eiga erfitt með að tjá sig með orðum. Þess vegna er mikilvægt að vinna út frá þverfaglegri nálgun til að gera sér betur grein fyrir orsökum hegðunarerfiðleika (Ásthildur Bj. Snorradóttir, e.d.). Á öllum deildum leikskólans eru Bínureglurnar notaðar markvisst. Þær eru í myndrænu formi víða um leikskólann til að minna börnin á viðeigandi boðskipti og ávallt er farið yfir þær í upphafi samverustunda, hópastarfs og málörvunarstunda.

Blær

Vináttuverkefni Barnaheilla (Fri for Mobberi) er forvarnarverkefni gegn einelti. Það kemur frá Danmörku og er þróað og mótað af samtökunum Red barnet og Mary Fonden. Tilgangur verkefnisins er að fyrirbyggja einelti með því að kenna góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Hugmyndafræðin endurspeglast í fjórum gildum sem eru umburðarlyndi, virðing, umhyggja og hugrekki. Lögð er áhersla á að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti og hvetja þau til að bregðast við því (Barnaheill, e.d.).

Í starfi okkar í Huldubergi er unnið markvisst með svokallaðar Blæstundir. Bangsinn Blær er táknmynd vináttu í verkefninu. Stóra Blæ fylgja litlir hjálparbangsar. Hvert og eitt barn í leikskólanum fær sinn eigin litla Blæ í upphafi leikskólagöngu sem þau taka með í stundirnar. Blær og hjálparbangsarnir tákna traust og vináttu í verkefninu. Bangsarnir eiga að minna börnin á að vera góður félagi allra og passa upp á hvort annað. Í upphafi stundanna er sest í hring og allir eru boðnir velkomnir í Blæstund ásamt því að stóri Blær bangsi er kynntur með þeim orðum að Blær ætlar að kenna okkur að vera vinir og sagt er frá því verkefni sem Blær mun kenna þann daginn. Í stundinni eru teknar fyrir mismunandi sögur um vináttu, sungin lög, dansað og börnin fá að knúsa bæði litla Blæ og stóra Blæ.
Í lok stundanna er aftur sest í hring og Blæ er þakkað fyrir stundina og bangsinn kvaddur.

Tónlist
Tónlist er stór þáttur í leikskólanum og á hverjum degi er sungið mikið með börnunum í samveru sem og í öðru starfi leikskólans. Þau læra gríðarlega mikið af textum á meðan leikskólagöngu stendur. Á þriðjudögum er sameiginleg söngstund, þvert á allar deildar leikskólans, undir handleiðslu Helga R. Einarssonar tónlistarkennara. Hann kemur í leikskólann með gítarinn sinn og syngur ásamt starfsfólki og börnunum nokkur lög þar sem öll börn leikskólans takan virkan þátt í sameiginlegri söngstund. Lögð er áhersla á að börnin upplifi söngstundina ánægjulega og því er mikilvægt að vera með fjölbreytt lagaval við hæfi aldur barnanna. Í söngstundum er verið að efla orðaforða, einbeitingu, vitsmunaþroska og félagshæfni. Inni á öllum deildum leikskólans eru sérstakar tónlistartöskur sem hafa að geyma mismunandi tóngjafa. Þær eru nýttar til að skapa og hvetja börnin áfram til að hlusta og að þau fái að snerta mismunandi hljóðfæri og sjá hvernig þau virka. Einnig eru hljóðgjafar úr umhverfinu notaðir t.d. steinar, spýtur, plast og gler.