Innskráning í Karellen

Velkomin á Hulduberg

Leikskólinn Hulduberg var opnaður 2. nóvember 1999. Deildirnar eru 6 talsins og heita Álfaberg, Flikruberg, Móberg, Silfurberg, Stuðlaberg og Tröllaberg. Börnin eru á aldrinum 1-2 ára.
Stefna leikskólans hefur verið umhverfisvæn frá upphafi. Áherslur okkar snúast um að njóta og nýta náttúruleg gæði. Mikil þróun hefur orðið á þessum árum og leikskólinn heldur áfram að þróa umhverfissjónarmiðin. Við höfum einnig litið til kenninga John Deweys en einkunarorðin "Learning by doing" falla vel að okkar hugmyndafræði og hugsun.

Leikskólastjóri er Þuríður Stefánsdóttir.
Aðstoðarleikskólastjóri er Jóna Rún Gísladóttir.

Netfang leikskólans er hulduberg[hja]hulduberg.is

Markmið Huldubergs

1. Barnið í heild sinni er miðdepill leikskólastarfsins. Börn læra best í gegnum leik og fá tækifæri til að njóta þess að takast á við lifandi náttúru og hafi í framtíðinni gaman af að takast á við ögrandi verkefni og leita sjálf lausna.

2. Að börnunum verði sýnd virðing, hlýja og umhyggja í allri umgengni og að allt starf leikskólans sé í nánu samstarfi við foreldra. Foreldrar séu okkar samstarfsaðilar í umönnun barnanna og við veitum þeim stuðning í foreldrahlutverkinu.

3. Að börnunum verði búið vel skipulagt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði sem eru lærdómsrík og auðga reynsluheim þess í nánasta umhverfi. Leikefni og efniviður sá sem börnin fá í hendur sé úr náttúrulegum efnum þar sem því verður við komið.

4. Að börnin fái tækifæri til að taka þátt í leik og starfi með jafnöldrum og læri að skynja og upplifa náttúruna og umhverfi sitt í félagi jafnoka undir leiðsögn starfsmanna. Vettvangsferðir og ræktun í gróðurreit sé fastur liður í starfsemi leikskólans.

5. Að efla alla þroskaþætti barnsins. Líkams-og hreyfiþroska, tilfinningaþroska, vitsmunaþroska, málþroska, félagsþroska og félagsvitund, fagurþroska og sköpunarhæfni, siðgæðisþroska og siðgæðisvitund.

6. Að auka umburðarlyndi, náungakærleika og víðsýni. Efla samskiptafærni þeirra og vináttu, sem og hæfni þeirra til að setja sig í spor annarra.

7. Að kenna þeim að bera virðingu fyrir umhverfinu og náttúrunni. Að þau fylgist með því sem gerist í náttúrunni alla mánuði ársins. Hluti af daglegum venjum sé að flokka sorp, þ.e. fernur, pappír, plastmál, áldósir o.fl. Kynna fyrir þeim endurvinnsluferlið og vinna eftir því á leikskólanum eins og kostur er.


Þáttökuaðlögun

Markmiðið er að barnið kynnist leikskólanum og starfsmönnum á rólegan og öruggan hátt með stuðningi foreldra sinna. Foreldri kynnist starfsfólkinu og öðrum foreldrum.

Aðlögunin byggir á fullri þátttöku foreldranna í starfi leikskólans þá daga sem hún á sér stað. Foreldri sinnir eigin barni, skiptir á því, gefur því að borða, leikur með því og er til staðar fyrir það.

Mikilvægt er að foreldri sé jákvætt og sátt með aðlögunina því það smitast yfir á barnið. Þátttökuaðlögun byggir á þeirri trú að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna